Tónleikar tónlistarskólans á tímum Covid

Tíminn hefur flogið hjá og senn koma jólin. Tónlistarskólinn hefur starfað með lítið breyttum hætti þrátt fyrir Covid og stuttan skóladag grunnskólans en samkomutakmarkanir hafa sett sitt mark á tónleika okkar.  

Október tónleikar tónlistarskólans í Öxarfjarðarskóla voru teknir upp og síðan birtir foreldrum og nemendum á youtube. Á Húsavík hjálpuðust kennarar að við að taka upp tónleikaatriði fyrir nóvember tónleikana og er Ervin að laga, klippa og útbúa kvikmynd sem verður birt foreldrum og nemendum á youtube. Það hefur tekið lengri tíma en við áætluðum að setja myndbandsupptökurnar og hljóðskrárnar saman og er þar fyrst og fremst reynsluleysi okkar um að kenna. Hann Ervin okkar hefur haft veg og vanda að þessari vinnu og er hann að setja síðustu hönd á verkið. Við munum klára vinnuna í þessari viku og senda foreldrum og nemendum hlekk á tónleika á Youtube.  

Eftir miklar vangaveltur og vonir um breytingar á samkomutakmörkunum, þá höfum við ákveðið að hafa jólatónleikana líka kvikmyndatónleika, enda lítill tími til stefnu. Jólatónleikarnir í Lundi verða kvikmyndaðir 15. desember og gerðir opinberir nemendum og foreldrum á youtube síðu skólans, líkt og október tónleikarnir. Á Húsavík verða tónleikaatriði nemenda kvikmynduð í kennslutíma nemendanna, eða eftir skóla, eftir því sem hentar best. Atriðin verða svo sett saman í nokkra tónleika, þeir settir á youtube síðu skólans og foreldrum og nemendum sendur hlekkur á tónleikana.  

Þeir sem ekki vilja taka þátt í upptökum af þessu tagi eru beðnir um að láta vita og þeirra atriði verður þá ekki sett á jólatónleika á youtube.