Fundargerðir 2013

Stjórnarfundur á Gamla Bauk 7. nóvember 2013 kl. 17:00


Mætt eru Arna, Helga Soffía, Soffía, Sighvatur og Árni.

Helga Soffía greindi frá því að núna í byrjun nóvember hefðu 10 manns borgað árgjald sem stjórnin setti á fyrir árið 2013, í bréfi sem sent var út í lok október. Af þeim greiddu 2 meira en uppgefið árgjald.
Umræða um að breyta nafninu árgjald í félagsgjald. Stjórn ræðir um að skrifa næst bréf í Skarp t.d. til að auglýsa Heiltón og ræða þar um félagsgjald og frjáls framlög og kalla eftir nýjum félögum ásamt því að senda á félagsmenn bréf eða tölvupóst. 
Árni skýrði frá fjárhagsstöðu skólans sem í stuttu máli er þannig að hann „heldur í horfinu“. Ekki er skorið niður sem stendur og er það í fyrsta sinn í 5 ár. Einnig munar um það að síðastliðin 2 ár hafa komið frá ríkinu fjárframlög sem greiða fyrir nemendur á framhaldsskóastigi og fyrir söngnemendur í mið og framhaldsnámi. Þetta er samningur milli ríkis og sveitarfélaga til stuðnings tónlistarnámi og auðveldar nemendum að fara á milli sveitarfélaga. 
Tónlistarkennslan gengur mjög vel á Raufarhöfn og í Lundi.
Uppskeruhátíð tónlistarskólanna verður haldin 15. febrúar næstkomandi. Þar verða valdir nemendur til að fara í svæðisbundna tónleika Nótunnar á Egilsstöðum í mars. Rætt um að finna „dómara“ úr röðum Þingeyinga sem gætu jafnvel verið með tónleika, námskeið eða einhverjar aðrar uppákomur meðfram því að veita viðurkenningar á uppskeruhátiðinni. Heiltónn ætlar að koma að þessu að einhverju leiti.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl 18.
Soffía B. Sverrisdóttir


Fundargerd Heiltóns 12.09. 2013


Stjórnarfundur Heiltóns haldinn á Gamla Bauk kl. 17.:00

Mætt eru Helga Soffía, Soffía, Arna, Sighvatur og Árni.

Tvennir tónleikar verða 15. febrúar á degi tónlistarskólanna. Tónleikarnir eru hluti af Nótunni, uppskeruhátið tónlistarskólanna. Munu Fanney Kristjánsdóttir og Ásta Þorgeirsdóttir koma norður til að hjálpa til við val á atriðum sem munu fara í Hof 1. mars. Lokahátíðin er í Hörpu í vor.
Þær stöllur munu vera með einhverja dagskrá fyrir norðan í tenglsum við þetta. Heiltónn ætlar að koma að þessum degi í tónlistarskólanum með einhverjum fjárstyrk ef þarf og aðstoð við skipulagningu. Einnig með því að kaupa geisladiska sem verða veittir sem viðurkenningar og útbúa viðurkenningarskjal með. Árni mun finna atriði í hléi eftir tónleikana meðan Fanney og Ásta ráða ráðum sínum. Arna mun verða i sambandi við Fanneyju.
Jólatónleikar eru að byrja í tónlistarskólanum, dagskrá í kirkjunni á sunnudaginn kemur og mikið um að vera.
Stjórn ætlar að hittast um miðjan janúar.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 17:30
Soffía B. Sverrisdóttir


Fundargerð stjórnar Heiltóns 12. September 2013


Fundur haldinn heima hjá Örnu á Höfðavegi kl. 17.

Mættar eru Soffía, Helga Soffía og Arna.

Rætt um árgjaldið sem stjórnin ákvað í vor. Ákveðið að senda bréf með upplýsingum og ákveðinni upphæð ásamt reikningsnúmeri til allra í hollvinasamtökunum. Upphæðin ákveðin 1000 kr.

Fleira ekki gjört, fundi lokið kl. 18.
Soffía B. Sverrisdóttir 


Aðalfundur í Heiltóni-Hollvinasamtökum Tónlistarskóla Húsavíkur.
Haldinn í Tónlistarskóla Húsavíkur 22. apríl 2013, í kaffistofunni kl. 17:30.

Mætt eru Auður, Arna, Helga Soffía, Soffía og Árni skólastjóri.

Arna flutti skýrslu stjórnar.
Árni fjallaði um fjármál skólans. Tónlistarskólinn hefur verið í varnarbaráttu um of langt skeið og mál að snúa vörn í sókn. Vonir eru bundnar við að lifni yfir atvinnumálum á svæðinu.
Auður meðstjórnandi gekk úr stjórn. Enginn bauð sig fram í hennar stað. Stjórnarmeðlimir munu svipast um eftir manneskju í hennar stað á næstunni.
Reikningar félagsins voru samþykktir einróma.
Eftir umræðu um fjáraflanir var samþykkt að setja á félagsgjöld. Er það trúa fundarmanna að félagsmenn vilji styðja við tónlistarskólann. Formaður og gjaldkeri ætla að skoða hvernig best sé að standa að því. Stefnt skal að því að rukka í vor eða haust. Upphæðin/árgjaldið var ákveðið 1.500- kr. Rætt um að stjórn myndi hittast í kaffihúsaspjalli í sumar.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:15
Soffía B. Sverrisdóttir


Skýrsla formanns flutt á aðalfundi 22. apríl 2013 á kaffistofu TH, kl. 17:30.

Kæru fundarmenn.

Þetta starfsár hefur innihaldið 7 stjórnarfundi. Þann 18 apríl 2012 var fyrsti fundur nýrrar stjórnar, mætt voru, Arna formaður, Soffía ritari, Helga Soffía gjaldkeri og meðstjórnendur Auður og Sighvatur.
Í maí 2012, er komin upp umræða um að breyta eigi sal skólans í matsal og mikið er rætt um hvaða áhrif það hefði á menningar og tónlistarlíf skólabarna.Upp kom einnig hugmynd um að kennarar myndu standa fyrir tónleikum sem yrði einskonar fjáröflun fyrir hollvinasamtökin.
Árni sagði frá því að Ásta Soffía Þorgeirsdóttir væri komin inn í Listasháskólann haustið 2012, til áframhaldandi tónlistarnáms, þykir okkur það mjög ánægjulegt. 
Á haustmánuðum var afríkutónlistarnámskeið sem sóttu um 108 manns víða úr sýslunni og einnig frá Akureyri. Á námskeiðinu voru 5 vinnubúðir í T.H. og út í bæ á Húsavík líka.
Mikið gagn og gaman var að þessu bæði í dansi og tónlist. Endað var svo með tónleikum, en námskeiðið var styrkt mest megnis af Norræna menningarsjóðnum. 
Enginn sammningur er við á milli ríkis og F.S.H um tónlistarkennslu. En í raun tapast héðan tónlistarnemendur til stærri skóla eins og til V.M.A. eða M.A., sem fá þá greiðslur frá ríki vegna tónlistarnema.
Reet Laube tónlistarkennari frá Eistlandi fer héðan aftur nú í vor en hún hefur starfað hér í 1 vetur. Lisa McMaster mun taka við hennar verkefni í vor og Reynir Gunnarsson mun taka við kennslu á Raufarhöfn. 
Í tónlistarskólanum er verið að endurmeta matskerfið og skráningu.
Í máli Árna skólastjóra kemur ítrekað fram að fjármál skólans eru erfið. 
Í vetur gerði T.H. stóran dag og eiginlega 2 daga hátíð úr degi tónlistarskólans sem er haldinn árlega í febrúar og er einskonar uppskeruhátið. Heiltónn kom að þessari hátíð með því að kaupa og afhenda geisladiska til viðurkenningar nokkrum nemendum eða hópum nemenda.
Hátíðin tókst vel, en loka tónleikar Nótunnar voru um miðjan apríl í Reykjavík. Tónleikarnir hér tókust vel og fóru tveir hópar héðan til Egilsstaða; hópur á vegum Lisu McMaster (rafmagsbassi, trommur og slagverk) og gítarleikarinn Sigurður Sigurjónsson. Hópurinn og Sigurður fengu viðurkenningu og Sigurður fer til Reykjavíkur til að spila í Hörpu á lokatónleikunum 14. apríl.
Í tilefni af 50 ára afmæli T.H var gefinn úr afmælisdiskur með upptökum frá nemendum s.l. 15 ára. Var hann tilbúinn á degi tónlistarskólanna og til sölu þá og voru tvær konur í stjórn Heiltóns sölukonur. Áfram er unnið við upptökur og myndbönd af nemendum og skipulag og skráning komið í nokkuð fastar skorður. Nú er verið að vinna við hljóð og myndbandsupptökur á vorönn 2013.
Mikið hefur verið rætt um fjáröflunarmöguleika fyrir samtökin (Heiltón) en lítið unnist.
Formaður fór á 3 fundi hjá menningar og fræðslunefnd Norðurþings.

Kærar þakkir fyrir veturinn
Arna Þórarinsdóttir formaður
Soffía Sverrisdóttir ritari


Fundargerd_Heiltons 09.04. 2013

Fundur á teríu Fosshótels Húsavík, 9. apríl 2013 kl. 12.
Mætt eru: Árni, Helga Soffía, Arna, Soffía og Auður.

Árni sagði frá því að Reet Laube tónlistarkennari frá Eistlandi færi aftur út nú í vor. Lisa McMaster mun taka við hennar verkefni í og Reynir Gunnarsson mun taka við kennslu á Raufarhöfn.
Enn og aftur kemur fram að fjámál skólans eru erfið. 
Uppskeruhátíðin tókst vel, en loka tónleikar Nótunnar eru um næstkomandi helgi (14. apríl) í Reykjavík. Tónleikar hér tókust vel og voru tvö atriði valin héðan til að fara til Egilsstaða; hópur á vegum Lisu McMaster (rafmagsbassi, trommur og slagverk) og gítarleikarinn Sigurður Sigurjónsson. Hópurinn og Sigurður fengu viðurkenningu og Sigurður fer til Reykjavíkur til að spila í Hörpu á lokatónleikunum.
Áfram er unnið við upptökur og myndbönd af nemendum og skipulag og skráning komið í nokkuð fastar skorður. Búið er að gefa út diskinn sem var með upptökum frá 2000 til 2012 Nú er verið að vinna við hljóð og myndbandsupptökur á vorönn 2013.
Ákveðið er að halda aðalfund samtakanna 22. apríl kl. 17:30 í kaffistofu Tónlistarskólans á Húsavík og hafa léttar veitingar. Fólk vantar í stjórn og ákveðið að auglýsa fundinn með pósti á meðlimi og auglýsa í leiðinni eftir fólki til að starfa í stjórn. Arna ætlar að skoða hvort einhverjir foreldrar barna í tónlistarskólanum hafi áhuga á stjórnarsetu.

Fundi slitið kl. 12:45, fleira ekki gert.

Soffía B. Sverrisdóttir


Fundargerd_Heiltons_19.02. 2013

Stjórnarfundur í Teríunni Fosshóteli Húsavík.
Mættar eru: Arna, Helga Soffía og Soffía. 

Heiltónn ætlar að kaupa nokkra geisladiska sem veittir verða sem viðurkenningar eftir tónleika næstu helgar. Laugardagurinn 23.02. er dagur tónlistarskólanna. Þau tónlistaratriði sem fá viðurkenningu munu fara til Egilsstaða á svæðistónleika Nótunnar eftir hálfan mánuð. Afhendingin rædd og að líklega muni Arna og Helga Soffía afhenda diskana fyrir hönd Heiltóns.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12:55.
Soffía B. Sverrisdóttir


Fundargerð stjórnar Heiltóns 5. febrúar 2013.

Terían á Fosshóteli Húsavík kl. 12:00

Mætt eru Helga Soffía, Sighvatur, Auður, Soffía, Arna og Árni Sigurbjarnarson.

Farið yfir hátíð tónlistarskólanna sem er 23. febrúar næstkomandi. Þann laugardag verða kóratónleikar, síðan kaffi og aðrir almennir tónleikar. Á sunnudeginum 24. febrúar verða tónleikar síðdegis kl. 15:30 og af þeim flytjendum verða valdir nemendur til að fara til Egilsstaða á svæðistónleika Nótunnar hálfum mánuði síðar. Í tilefni af útvalningunni munu þessir nemendur fá geisladisk að gjöf sem viðurkenningu. Heiltónn mun líklega koma að kaupum og afhendingu á geisladiskunum. Einnig kom fram að nemendur sem taka áfangapróf í apríl fá viðurkenningu.
Geisladiskur tónlistarskólans gæti verið tilbúinn fyrir dag tónistarskólanna og því hugsanlegt að hafa hann til sölu þá helgi.

Ákveðið að funda aftur eftir tvær vikur.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 13.
Soffía B. Sverrisdóttir