Píanónám

PíanóNokkur atriði varðandi nám á píanó

Nauðsynlegt er að nemendur hafi aðgang að píanói til æfinga heima fyrir ásamt píanóstól við hæfi. Þá er mikilvægt að hljóðfærið sé vel stillt og staðsett þar sem nemandi getur haft gott næði til æfinga. Fótskemill er æskilegur fyrir yngstu nemendurna.

Píanóið er yngra hljóðfæri en margur hyggur, aðeins rúmlega tveggja alda gamalt. Tilurð þess byggir þó á nokkurra alda þróun ýmissa annarra hljómborðshljóðfæra.

Hér á landi voru píanó fágæt framan af en frá aldamótunum 1900 hefur píanóeign landsmanna aukist jafnt og þétt. Nú til dags skipta píanó hérlendis þúsundum, á heimilum, í skólum, tónleikasölum, samkomusölum og opinberum byggingum.

Vinsældir píanónáms eru miklar og sækist fólk á öllum aldri eftir að nema píanóleik. Algengast er að námið hefjist um 8 ára aldur en sé boðið upp á viðeigandi kennsluaðferðir, s.s. Suzuki-aðferð, geta nemendur byrjað fyrr, allt frá 4 ára aldri.

Hefðbundið píanónám mótast að verulegu leyti af rótgrónu einleikshlutverki hljóðfærisins í tónbókmenntunum. Jafnframt er píanó mikilvægt samleikshljóðfæri og er samleikur af ýmsu tagi því mikilvægur þáttur í náminu og gefur því aukið félagslegt gildi.

Aðalnámskrá tónlistarskóla, Hljómborðshljóðfæri. Bls. 9-10.O