Útgefið námsefni frá Tónlistarskóla Húsavíkur

"Hljóðfæranám fyrir alla / tónlistarskóli" er samstarfsverkefni Tónlistarskóla Húsavíkur, Borgarhólsskóla og leikskólans Grænuvalla. Verkefnið hefur hlotið styrk úr þróunarsjóðum grunnskóla og leikskóla. Út hefur verið gefið í þessu verkefni: Námskrá, 1. blokkflautubók, 2. blokkflautubók, Leikskólahefti, Jólalagahefti, Tónfræðibækur 1-3 og Tónlistarsaga. Bókunum fylgja geisladiskar með undirleik.

Tónlist fyrir alla er hugsað sem kennsluefni fyrir 4-9 ára börn, en þar er að finna fjölbreytt verkefni s.s. í tónfræði, hlustun og skapandi vinnu. Öll lögin eru útsett í fleiri röddum sem eru mismunandi erfiðar og á að gefa fjölbreyttari möguleika í kennslu nemenda í hópum, þar sem getustig nemenda er mismunandi.

Verkefnin eru hugsuð þannig að þau hæfi sem flestum nemendum og að töluverður getumunur sé meðal nemenda innan hvers hóps. Hvað varðar stærð hópa er það háð hverjum kennara og aðferðum hans ásamt samsetningu hvers hóps (félagslega, þroskalega) hvaða hópastærð hentar.

Blokkflautubækurnar eru myndskreyttar með myndum eftir Þórarin Má Baldursson. Útsetningar eru eftir Line Werner, Helga Pétursson og Ragnar L. Þorgrímsson. Robert Faulkner lagði til tillögur að skapandi vinnu og val á hlustunardæmum. Helgi Pétursson sá einnig um nótnaútskrift og tölvuvinnu, Jón Ásgeir Hreinsson hannaði bækurnar og Árni Sigurbjarnarson hafði umsjón með útgáfunni.