Gítarnám

GítarGítar
Boðið er upp á klassískt gítarnám auk náms á raf-gítar og raf-bassa. Einnig er boðið upp á hópkennslu á gítar það sem kennt er hljómaspil.

Nokkur atriði varðandi nám á gítar

Á liðnum áratugum hafa fá hljóðfæri notið meiri vinsælda en gítarinn, jafnt í klassískri sem rytmískri tónlist. Auk þess er hann algengastur undirleikshljóðfæra við alþýðusöng.

Þessi námskrá fjallar um nám í klassískum gítarleik, þ.e. nám á klassískan gítar með nælonstrengjum, en fjallað er um rafgítarleik í námskrá í rytmískri tónlist.

Klassíski gítarinn á sér um tvö hundruð ára sögu í þeirri mynd sem við þekkjum hann í dag. Fjölbreyttar tónbókmenntir hljóðfærisins spanna hins vegar lengri tíma því að lútu- og gítartónlist endurreisnar- og barokktímans er oft flutt á klassískan gítar.

Algengast er að gítarnemendur hefji nám við átta til tíu ára aldur þó dæmi séu um yngri nemendur. Í upphafi gítarnáms er nauðsynlegt að nemendur hafi hljóðfæri við sitt hæfi. Ungir nemendur ættu að nota gítar í barnastærð eða þar til gerða klemmu á háls hljóðfærisins.

Við tólf til þrettán ára aldur eiga flestir gítarnemendur að geta notað gítar í fullri stærð. Allir gítarnemendur ættu að eiga fótstig og nótnapúlt frá upphafi námsins. Mikilvægt er að nemendur sitji rétt með gítarinn og varist alla spennu í líkamanum.

Aðalnámskrá tónlistarskóla, Gítar og harpa. Bls. 7.