Um skólann


Það var á árinu 1961 að tónlistarskóli tók til starfa á Húsavík. Fyrstu árin var starfsemi skólans fremur takmörkuð og voru nemendur um 30 - 40. Haustið 1963 tóku Tónlistarskólinn, Lúðrasveit Húsavíkur og Karlakórinn Þrymur sig saman um að ráða til sín erlendan tónlistarmann. Við þetta urðu nokkur straumhvörf í starfssemi skólans. Það voru erlendir tónlistarmenn sem voru aðal vítamínsprautan fyrir tónlistaskólann á þessum árum en Skólastjórnendur voru þó ávallt íslenskir.

Tónlistarskólinn hafði aðsetur í Barnaskólanum í byrjun, en þegar fór að þrengja að flutti hann sig um set í Félagsheimili Húsavíkur. Á árunum 1968- 72 flutti hann aftur í húsnæði Barnaskólans og hefur verið þar síðan. Nemendur við tónlistarskólann voru 47 árið 1963 en árið 1995 voru þeir orðnir 288. Árið 1972 var aukið samstarf við nágrannasveitarfélögin og þeim boðið samstarf, Mývetningar brugðust fyrstir við og stuttu síðar var svo stofnuð tónlistardeild við Stórutjarnarskóla. Nemendur voru um 30 - 40 á hvorum stað. Einnig voru stofnaðir nokkrir aðrir tónlistarskólar víða um sýsluna.
 
Fljótlega fór að gæta samstarfs milli Tónlistarskólans og Barnaskólans enda störfuðu þeir megnið af tímanum í sama húsnæði. Það var svo árið 1972 sem nemendur Barnaskólans byrjuðu að fara úr tímum til tónlistartíma. Þetta tókst það vel að samstarf skólanna jókst ár frá ári. Það var svo árið 1992 sem formlegt samstarf hófst á milli Tónlistarskólans og Borgarhólsskóla (Gagnfræðiskóli Húsavíkur og Barnaskóli Húsavíkur voru sameinaðir undir nafni Borgarhólsskóla 1992). Verkefni þetta var kallað "Hljóðfæranám fyrir alla". Skólarnir fengu styrk úr Skólaþróunarsjóði til eins árs og átti verkefnið að taka þrjú ár. Markmiðið með þessu verkefni var að gefa öllum börnum í heilum árgangi tækifæri til að kynnast hljóðfæranámi áður en þau hæfu hefðbundið tónlistarnám. Þetta verkefni tókst það vel að haldið var áfram með það og það víkkað út með þátttöku Leikskólans Bestabæjar. Markmiðið með þessu var að bjóða öllum börnum á aldrinum 4 - 8 ára upp á markvissa tónlistarkennslu. Verkefni þetta er enn í gangi og fer þannig fram að börn á leikskólanum fá til sín tónlistakennara, börn í 1. bekk almenna tónlistarkennslu í beinu framhaldi af því sem unnið var með þeim í leikskólanum. Í 2. og 3. bekk fá nemendur bæði kennslu í tónmennt og hópkennslu á blokkflautu og nótnalestri. Í fjórða bekk velja nemendur sér hljóðfæri og eru þrír saman í hóp.