Víólunám

Nokkur atriði varðandi nám á víólu.

Víólan er náskyld fiðlunni og mjög lík í útliti. Víólan er oftast stærri, úr þykkari við og þar af leiðandi þyngri. Vegna stærðar og þyngdar hljóðfærisins er erfiðara fyrir unga víólunemendur en fiðlunemendur að tileinka sér góða, átaklausa tækni. Til eru lítlar víólur, gerðar fyrir unga nemendur og hljóma þær stundum allvel. Einnig getur komið til greina að nota fiðlur með víólustrengjum en sá kostur er lakari. Fiðlur með víólustrengjum hljóma hvorki eins og fiðlur né víólur og gefa ranga hugmynd um tón víólunnar. Vegna skyldleikans við fiðluna er ekkert því til fyrirstöðu að smá vaxnir nemendur hefji nám sitt á fiðlu og skipti síðar yfir á víólu. Öðru máli gegnir ef nemandi byrjar að læra á aldrinum 3 til 5 ára, t.d. með Suzuki-aðferð. Í slíkum tilfellum verður að nota litlar fiðlur, færa strengina til þannig að A-strengur verði þar sem E-strengur er á fiðlunni o.s.frv.

Litlar áreiðanlegar heimildir eru til um uppruna víólunnar. Víólan eins og hún er nú mun þó hafa þróast frá hljóðfærum gambafjölskyldunnar, einkum viola da braccio. Braccio merkir armur eða handleggur og er víólan því á erlendum tungumálum oft neffnd bratsche eða brats.

Tónlist fyrir víólu er einkum skrifuð í C-lykli (altlykli) og kynnast nemendur honum því fyrst . Síðar þurfa þeir einnig að öðlast lestrarleikni í G-lykli. Gagnlegt er fyrir alla víóluleikara að hafa kynnst fiðlunni og á sama hátt er æskilegt að fiðluleikarar hafi fengi að kynnast víólunni og þeim eðlismun sem er á þessum tveim náskyldu hljóðfærum.

Aðalnámskrá tónlistarskóla, Strokhljóðfæri – Víóla. Bls. 39. –  40.