Saxófónnám

SaxSaxófónn
Algengt að ungir nemendur byrji á að læra á klarínett áður en þeir geta hafið nám á saxafón.

Nokkur atriði varðandi nám á saxófón


Nám á saxófón getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á og ferðast með hljóðfærið. Algengast er að saxófónnám hefjist þegar nemendur eru 10-12 ára gamlir þó að dæmi séu þess að nemendur hafi byrjað fyrr. Oft þykir æskilegt að nemendur læri á annað minna og meðfærilegra tréblásturshljóðfæri fyrst og skipti svo þegar kennarinn telur henta. Þetta getur verið heppilegt en er þó alls ekki nauðsynlegt.

Algengustu meðlimir saxófónfjölskyldunnar eru sópran-, alt-, tenór- og barítónsaxófónar. Megnið af klassískum tónbókmenntum saxófónsins er skrifað fyrir altsaxófón. Algengast er því að nemendur læri á það hljóðfæri, einkum þeir sem áhuga hafa á klassískri tónlist. Nemendur, sem hyggja á framhaldsnám í saxófónleik á klassísku sviði, ættu að nota altsaxófón sem aðalhljóðfæri, a.m.k. frá miðprófi.

Val á saxófóni er ekki í jafn föstum skorðum þegar kemur að djass-, popp- og rokktónlist. Nemendur, sem leggja áherslu á slíka tónlist, geta haft hvaða saxófón sem er sem aðalhljóðfæri en alt- og tenórsaxófónar eru þó algengastir. Nám í djass-, popp- og rokktónlist fer fram samkvæmt námskrá í rytmískri tónlist. Öllum saxófónnemendum er hollt að kynnast fleiri en einum af meðlimum saxófónfjölskyldunnar einhvern tíma á námsferlinum.

Aðalnámskrá tónlistarskóla, Tréblásturshljóðfæri. Bls. 167-168.