Afmælishátíð Nótunnar frestað til mars 2021

 Framkvæmdastjórn Nótunnar hefur ákveðið að ekki sé ráðlegt að halda afmælishátíð Nótunnar 29. mars næst komandi. Hátíðinni hefur verið frestað til 14. mars 2021. Hér má sjá bréfið sem framkvæmdastjórnin sendi tónlistarskólum landsins:

Í ljósi aðstæðna, þar sem lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19, telur framkvæmdastjórn Nótunnar sér ekki stætt á öðru en að fresta 10 ára afmælishátíð Nótunnar sem halda átti þann 29. mars nk.

Í þessum óvanalegu aðstæðum taka ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda mið af samhengi ólíkra þátta (heilsuvernd, félags- og efnahagslegra þátta) en ljóst er að eitt meginmarkmiðið nú er að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar og er samkomubann eitt af því sem er til skoðunar. Ákvörðun þar að lútandi mun m.a. ráðast af því hversu hröð útbreiðsla veirunnar verður og getu heilbrigðiskerfisins til að sinna sjúklingum á hverjum tíma (þeir sem veikjast verst geta þurft á stuðningi öndunarvéla að halda en fjöldi þeirra er takmarkaður). Í því skyni að hægja á útbreiðslu veirunnar hefur verið hvatt til þess að aðilar fresti eða felli niður samkomur sem ekki eru þeim mun nauðsynlegri eða, að öðrum kosti, að skipulagning sé með þeim hætti að ekki stafi smithætta af, og er KÍ ekki undanskilið þeirri vegferð.

Eins og kom fram í skrifum mennta- og menningarmálaráðherra í Morgunblaðinu í gær þá er markmiðið að halda skólastarfi áfram eins lengi og unnt er, en ekki er óvarlegt að ætla að til lokunar skóla geti komið á ákveðnum tímapunkti og tekur undirbúningur stjórnvalda mið af því.

Haldið upp á afmælið að ári

Skipulagning og framkvæmd afmælishátíðarinnar er stórt verkefni fyrir alla hlutaðeigandi og að vel athuguðu máli þykir það ekki fýsilegur kostur að reyna að negla niður nýja dagsetningu í vor, t.d. um miðjan maí. Óvissuþættir yrðu fjölmargir og skólar myndu vafalítið heltast úr lestinni af ýmsum ástæðum sem bæði mætti rekja til COVID-19 (áhrifa sjúkdómsins á fjölskyldur, þ.m.t. kennara, skólastjóra og nemendur, sem og áhrif mögulegra aðgerða á nám nemenda hvort sem væri í tónlistar-, grunn- eða framhaldsskólum og úrvinnslu þess í framhaldinu, o.fl.) og þess að ekki er óvarlegt að ætla að ný dagsetning muni skarast á við annað skipulag hlutaðeigandi og dómínóáhrif þess á möguleika til þátttöku yrðu óhjákvæmileg.

Eftir vandlega íhugun telur framkvæmdastjórn Nótunnar það vænlegasta kostinn í stöðunni að afmælishátíðinni verði frestað um ár og haldið verði upp á afmæli Nótunnar sunnudaginn 14. mars 2021 í Hörpu. Um leið og framkvæmdastjórnin harmar það mjög að til þessa hafi þurft að koma teljum við ákvörðunina það eina rétta í stöðunni.

Við hvetjum að sjálfsögðu skóla til að leitast við að gera það besta úr stöðunni og vonum svo innilega að nemendum gefist tækifæri til að flytja og sýna afrakstur þeirrar miklu vinnu sem lagt hefur verið í á hverjum stað en hátt á sjöunda hundrað tónlistarnemendur stefndu á þátttöku í afmælishátíðinni.

Við sendum nemendum, kennurum og stjórnendum kærar þakkir fyrir að hafa lagt upp í þetta afmælis-ferðalag með okkur og vonum að sú inneign sem undirbúningsvinnan skilur eftir sig hjá nemendum sé okkur öllum smá ljóstýra í annars frekar þungbærri stöðu.