Tónlistarskólinn á Húsavík

Tónlistaskóli Húsavíkur Norðurþing

Fréttir

Vorferđ til Hvammstanga

Almennt - miđvikudagur 16.maí.12 09:42 - Lestrar 4872
Nánar um ferðalag gítarnema til Hvammstanga. Ferðasaga Þorvaldar Más Guðmundssonar gítarkennara og fyrrum nemanda í Tónlistarskóla Húsavíkur.
Vorferð eldri gítarsveita Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar til Hvammstanga í apríl 2012
Lagt var af stað á laugardagsmorgni frá Austugötu í Reykjanesbæ með rútu og restin af hópnum tekin upp í Hraunbergi í Reykjavík. Það var rétt svo að við kæmum dótinu okkar fyrir þrátt fyrir mörg aukasæti, það fylgja okkur 10 auka gítarar sem taka sitt pláss, en allt hafðist þetta enda vorum við með flottan kall við stýrið frá SBK. Stoppuðum og
fengum okkur hádegishressingu í Staðarskála. Komum um eittleytið á Hvammstanga og mætti Elínborg skólastjóri
Tónlistarskóla V-Húnvetninga til að taka á móti okkur í Grunnskólanum. Stuttu seinna bættust í hópinn galvaskir gítarleikarar frá Tónlistarskóla Húsavíkur ástamt mínum gamla meistara honum Villa. Byrjað var á því að koma farangri og hljóðfærum inn í skóla og því
næst sýndi Elínborg okkur skólann og við hittum Ásgeir gítarkennara og
nemendur hans.
Eftir að búið var að koma sér fyrir skiptum hópnum í þrennt og æfðum sameiginlegu lögin í röddum. Eftir
það komu allir hóparnir saman og fyrsta sameiginlega æfingin haldin. Á meðan við æfðum fór Teddi okkar frábæri fararstjóri í innkaupaleiðangur og undirbjó kaffitímann. Allir nemendur komu með bakkelsi að
heiman sem var lagt á sameiginlegt hlaðborð. Eftir góða hressingu og spjall fóru nokkrir drengir út í körfubolta og fótbolta en við hin fórum í göngutúr um bæinn,
Elínborg sýndi okkur Tónlistarskólahúsið og bauð okkur einnig heim til sín á leið okkar um bæinn. Sólin skein skært á heiðum himni báða dagana og því má segja að heimamenn og veðurguðirnir
hafi gert allt til að láta okkur líða vel á Hvammstanga þessa helgina. Eftir góða
göngu og boltaleiki kveikti Teddi upp í grillinu og tók til við að grilla dýrindis Hamborgara af stærri gerðinni 140 gr. með beikoni og öllu tilheyrandi runnu þeir ljúft
ofan í mannskapinn. Meðan að við borðuðum þá fengum við skemmtileg tónlistaratriði frá Ásgeiri og strákunum hans á Hvammstanga, en þeir stilltu upp trommusetti og mögnurum í matsalnum. Eftir að allir voru búnir að borða æfði hver hópur sín atriði og rétt áður en farið var í háttinn sáum við saman DVD af ferðinni sem við fórum til Spánar 2009. Það var skemmtileg
upprifjun og vonandi eigum við eftir að fara aftur saman í slíka ferð í framtíðinni. Það var vaknað snemma að morgni sunnudags og eftir morgunmat var gengið frá svefnbúnaði og gert klárt fyrir brottför. Síðan tóku hóparnir lokarennsli á sínum lögum áður en allir hóparnir tóku lokarennsli á sameiginlegu lögunum. Villi var settur á kassann (cajon-ið)
því slagverksnemandinn frá Hvammstanga gat ekki verið með okkur á sunnudeginum og fór sá gamli létt með enda spænskur rythmi honum í blóð borinn. Að því loknu fóru allir í sund og náðu að slappa vel af í sólinni og snyrta sig fyrir tónleikana. Í hádeginu kveikti Teddi aftur upp í
grillinu og voru nú grillaður pylsur úti í sólinni og fyllt á bensíntankinn fyrir tónleikana.
Tónleikarnir voru haldnir í safnaðarheimilinu sem er tengt við kirkjuna með glerbyggingu. Sólin skein skært á flytjendur og tónleikagesti og skapaðist því suðræn stemmning þótt flestum væri orðið fullheitt og gítarnir voru svolítið á flökti og þurfti mikið að stilla. Allt gekk þó vel og hljómuðu atriðin mjög vel. Fyrst spiluðu nemendur frá öllum skólunum sólóverk. Þar á eftir komu samspilatriði frá öllum skólum og tónleikarnir enduðu svo á því að allir hóparnir léku saman tvö lög. Eftir tónleika var svo haldið heim á leið. Ég vil þakka fararstjóranum okkar honum Tedda kærlega fyrir frábær störf og góða fararstjórn, einnig hans betri helming Guðnýju fyrir
aðstoð við undirbúning. Ferðin var mjög vel heppnuð og skemmtileg í alla staði enda mjög góður hópur sem á eflaust eftir að gera margt skemmtilegt saman í framtíðinni.

Til baka

moya - Útgáfa 1.7 2006 - Stefna ehf

Innskráning